Enski boltinn

Carroll tryggði tíu leikmönnum Liverpool ótrúlegan sigur

Andy Carroll var hetja Liverpool í kvöld er liðið lagði Blackburn, 2-3, í afar skrautlegum leik. Sigurmarkið kom í uppbótartíma. Liverpool missti markvörð sinn af velli og tapaði niður tveggja marka forskoti en hafði sigur að lokum.

Fyrri hálfleikur var í meira lagi skrautlegur. Maxi kom Liverpool í 2-0 með fínum mörkum en svo fór að halla á ógæfuhliðina hjá gestunum.

Doni markvörður var rekinn af velli fyrir að brjóta á Yakubu og Brad Jones kom í búrið. Hann gerði sér lítið fyrir og varði arfaslaka spyrnu Yakubu.

Jones kom þó engum vörnum við er Yakubu skallaði boltann í netið skömmu síðar. 1-2 í hálfleik og erfiður seinni hálfleikur fram undan fyrir tíu leikmenn Liverpool.

Þegar hálftími lifði leiks var dæmt annað víti á Liverpool. Aftur var markvörðurinn sá brotlegi en Jones slapp með gula spjaldið og var heppinn enda afar klaufalegt brot. Yakubu fór aftur á punktinn og að þessu sinni skoraði hann.

Blackburn pressaði talsvert það sem eftir lifði leiks og það var þvert gegn gangi leiksins er Andy Carroll tryggði Liverpool sigur með laglegu skallamarki í uppbótartíma.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×