Innlent

Íslendingar uppgötvi land sitt á nýjan leik

Samvinnuverkefni ferðaþjónustunnar um land allt miðar að því að kynna Ísland sem áfangastað fyrir landsmönnum.
Samvinnuverkefni ferðaþjónustunnar um land allt miðar að því að kynna Ísland sem áfangastað fyrir landsmönnum. Fréttablaðið/Valli
„Við viljum senda þau skilaboð að Ísland sé fullt af kraumandi ævintýrum fyrir alla fjölskylduna og að hér heima sé hægt að upplifa margt sem er einstakt á heimsvísu.“

Þetta segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri um samkomulag sem var undirritað í gær milli Ferðamálastofu, markaðsstofa allra landshluta og Ferðaþjónustu bænda.

Verkefnið er til þriggja ára og er því ætlað að auka áhuga Íslendinga á ferðalögum innanlands.

„Síðustu misseri hafa ferðalög Íslendinga til útlanda verið að aukast aftur eftir hrun, en það hefur ekki verið að gerast með ferðalög innanlands,“ segir Ólöf.

„Það er eins og fólk hafi enn ekki vaknað til meðvitundar á ný um hversu Ísland er gott til ferðalaga.“

Ólöf bætir því við að verkefnið sé að frumkvæði markaðsstofa landshlutanna og með því sé horft sameiginlega til framtíðar.

„Við erum að horfa til lengri tíma en áður, til þriggja ára, en við stefnum að því að breyta viðhorfi þjóðarinnar gagnvart Íslandi sem ferðamannaáfangastað. Við viljum vekja upp hjá Íslendingum áhuga fyrir því að ferðast um landið eins og ferðamenn. Að hér alist upp kynslóð sem líti á Ísland sem áfangastað til ferðalaga, til jafns við önnur lönd.“

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×