Innlent

Þór kemur heim í vikunni

Varðskipið Þór er á heimleið.
Varðskipið Þór er á heimleið.
Varðskipið Þór fór í prufusiglingu í gær frá Bergen þar sem gerðar voru titrings- , eldsneytis- og hraðamælingar á ýmsum hröðum og undir misjöfnu álagi.

Í tilkynningu segir að Rolls Royce í Noregi hafi nýverið skipt um aðra aðalvél skipsins vegna titrings sem mældist í skipinu eftir að það kom til Íslands síðastliðið haust. En framkvæmdin er á ábyrgð og kostnað Rolls Royce. „Siglingin sem stóð yfir í um 12 klukkustundir gekk vel að sögn skipherra. Enginn óeðlilegur titringur mældist í siglingunni og virðist sem ganghraði varðskipsins hafi aukist frá því sem áður var því hann mældist 20,1 sml en áður mældist hann 19,45 sml.

Reiknað er með að Þór verði afhentur um miðja vikuna og siglir þá til Íslands. Síðastliðna daga hefur áhöfn varðskipsins setið ýmis námskeið sem tengjast búnaði skipsins.

Varðskipið Þór kom til Noregs 9. febrúar síðastliðinn og hefur eftirlit með framkvæmdunum, af hálfu Landhelgisgæslunnar, verið framkvæmt af tæknistjóra og yfirvélstjóra. Landhelgisgæslan mun ekki bera neinn kostnað af framkvæmdunum og lengist ábyrgðartími véla og skips sem nemur framkvæmdartímanum," segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×