Innlent

Fimm milljarðar afskrifaðir

Þorgeir Baldursson, sem er oft kenndur við Odda, er fyrrverandi stjórnarmaður í Landsbankanum.
Þorgeir Baldursson, sem er oft kenndur við Odda, er fyrrverandi stjórnarmaður í Landsbankanum. fréttablaðið/hag
Fyrrum eigendur Prentsmiðjunnar Odda eignuðust fyrirtækið nýverið eftir að hafa keypt það á 500 milljónir króna. Áður en Oddi var seldur höfðu Arion banki og Landsbankinn afskrifað um fimm milljarða króna af skuldum móðurfélags Odda, eignarhaldsfélagsins Kvosar ehf. Um er að ræða Þorgeir Baldursson, sem var stærsti einstaki eigandi Kvosar fyrir fjárhagslega endurskipulagningu félagsins, og aðila tengda honum. DV greindi frá málinu í gær.

Í byrjun desember síðastliðnum ákváðu kröfuhafar Kvosar að lækka hlutafé félagsins niður til jöfnunar á tapi. Strax í kjölfarið var samþykkt að hækka hlutaféð aftur með útgáfu nýrra hluta að fjárhæð 500 milljónir króna og greiddi Arion banki fyrir það með umbreytingu skulda í hlutafé. Í sérfræðingaskýrslu endurskoðanda sem gerð var vegna hlutafjárhækkunarinnar, og Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að Kvos hafi skuldað Landsbankanum um þrjá milljarða króna þann 1. desember síðastliðinn. Bankinn samþykkti þá að breyta 181,3 milljónum króna í nýtt hlutafé og seldi til Arion banka.

Kvos skuldaði Arion banka 4,3 milljarða króna á sama tíma. Í sérfræðingaskýrslunni kemur fram að „Arion og Kvos hafa komið sér saman um að langtímaskuldir Kvosar við Arion eftir þá endurskipulagningu skulda sem fram fer með samkomulagi þessu, skuli nema kr. 2.170.377.235,-“. Til viðbótar breytti Arion 318,7 milljónum króna af kröfum sínum í nýtt hlutafé sem selt var til nýrra eigenda. Aðrar skuldir Kvosar, um fimm milljarðar króna, voru afskrifaðar.-þsj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×