Innlent

Biðja verktaka að framlengja tilboð í Vaðlaheiðargöng

Tilboð í Vaðlaheiðargöng rennur út 14. febrúar nk.
Tilboð í Vaðlaheiðargöng rennur út 14. febrúar nk.
Lægsta tilboð í Vaðlaheiðargöng rennur út eftir fimm daga. Formleg ósk um að það verði framlengt um fjóra mánuði verður lögð fram í dag.

Fjórir mánuðir eru liðnir frá því tilboð voru opnuð í gerð Vaðlaheiðarganga en lægsta boð kom frá ÍAV og Marti og var upp á tæpa níu milljarða króna, um hálfum milljarði króna undir kostnaðaráætlun. Tilboðið rennur hins vegar út næstkomandi þriðjudag. Stjórn Vaðlaheiðarganga hefur nú ákveðið að fara þess á leit við verktakana að þeir framlengi tilboð sitt um fjóra mánuði og verður sú ósk lögð fram á fundi Vegagerðarinnar með fulltrúum ÍAV og Marti í dag, að sögn Kristínar H. Sigurbjörnsdóttur, formanns stjórnar Vaðlaheiðarganga ehf.

Fjármálaráðherra áformar að leggja fyrir Alþingi frumvarp í því skyni að treysta heimild til ríkisábyrgðar á lánveitingum vegna jarðganganna og láta reyna á ný hvort þingmeirihluti sé fyrir málinu. Með framlengingu tilboðsins vonast menn til að skapa Alþingi nægilegt svigrúm til að móta endanlega afstöðu til verkefnsins.

Alþingi var þó engu að síður, með samþykkt fjáraukalaga í desember, í raun búið að marka stefnuna en þar var fjármálaráðherra veitt heimild til að gera samning um fjármögnun Vaðlaheiðarganga og taka lán fyrir allt að einum milljarði króna fyrir framkvæmdunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×