Lífið

Stelpurnar spenntar fyrir drulluboltanum

Fjögur lið voru skráð til leiks í fyrsta mýrarboltanum árið 2004 en í ár eru þau orðin 83. Gríðarleg fjölgun er á kvennaliðum í ár.
Fjögur lið voru skráð til leiks í fyrsta mýrarboltanum árið 2004 en í ár eru þau orðin 83. Gríðarleg fjölgun er á kvennaliðum í ár. Mynd/einkaeign
„Það er metskráning á mótið í ár og gríðarleg fjölgun á kvennaliðum,“ segir Jón Páll Hreinsson, gjaldkeri Mýrarboltafélags Íslands.

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta verður haldið á Ísafirði um helgina og eru þegar 83 lið skráð til leiks. Í fyrra tóku fimmtíu lið þátt í mótinu en voru aðeins fjögur þegar það var fyrst haldið árið 2004. Mýrarboltinn er hálfgerður drullufótbolti þar sem lið keppast við að koma bolta í net andstæðingsins á velli sem er eitt drullusvað. „Þetta er líkamlega mjög erfitt og allt gerist rosalega hægt inni á vellinum, sem er líklega ástæða þess að ekki hefur verið mikið um meiðsl,“ segir Jón Páll, en í yfir eitt þúsund leikjum hefur einn maður snúið sig á hné og annar brákað á sér tá og er sjúkrasagan þar með upptalin. Ekki er aðeins keppt í boltaleik á mótinu því metnaðarfull búningakeppni er háð samhliða auk þess sem baráttan um drullugasta keppandann er mjög vinsæl. „Ætli drulluverðlaunin séu ekki eftirsóttust, enda þvottavél í boði fyrir sigurvegarann,“ segir Jón Páll.

Fjörubrenna og flugeldasýning verða á laugardagskvöldið og fyrir lokahófið á sunnudag verður öllum stöðum bæjarins lokað og fólki safnað á útiball. Jón Páll segir Ísafjarðarbæ tilbúinn í þá miklu aukningu fólks sem má reikna með um helgina. „Við bjóðum alla velkomna, Ísfirðinga, Vestfirðinga, Íslendinga og aðra.“ segir hann, spenntur fyrir helginni.- trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.