Innlent

Norðurálshetjan: Skilaboðin þau að maður eigi að hjálpa náunganum

Þórarinn Björn Steinsson segir að sér sé gífurlega létt eftir að Hæstiréttur sneri við dómi héraðsdóms og viðurkenndi í dag bótaskyldu Norðuráls og Sjóvár. Þórarinn hafði stefnt félögunum eftir að þau neituðu að samþykkja bótaskyldu sína en hann er 75 prósent öryrkji í dag eftir að hafa komið vinnufélaga sínum til bjargar þar sem þeir voru við vinnu í álveri Norðuráls á Grundartanga. „Það er léttir að hafa náð að klára þetta mál á þennan hátt," sagði Þórarinn í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. „Þetta gat farið á beggja vegu, lögin eru bara þannig í landinu." Þórarinn segist hafa verið frá vinnu í eitt og hálft ár og alls óvíst hvort hann nái sér að fullu.

Slysið sem um ræðir varð með þeim hætti að vinnufélagi Þórarins fær skautklemmu ofan á sig. Þórarinn og félagi hans stukku þá til og lyftu klemmunni, sem er um 600 kíló að þyngd ofan af samstarfskonunni. Við þetta meiddist Þórarinn í baki og vildu lögfræðingar Norðuráls meina að hann hefði átt að gæta betur að eigin öryggi áður en hann kom konunni til bjargar. Hún hefur náð sér að fullu, að því er Þórarinn segir.

„Skilaboð Hæstaréttar í þessu máli eru einfaldlega þannig að menn eigi að hjálpa náunganum," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×