Innlent

Simpson fjölskyldan býr í Oregon

Eitt best geymda leyndarmál síðustu ára er nú komið fram í dagsljósið. Allt frá því fyrsti þátturinn af hinni geysivinsælu teiknimyndaseríu The Simpsons fór í loftið árið 1989 hafa menn velt því fyrir sér hvar í Bandaríkjunum heimabær fjölskyldunnar, Springfield, á að vera staðsettur.

Springfield er eitt algengasta bæjarnafnið í Bandaríkjunum og því koma flest ríki landsins til greina og allir geta séð sinn bæ fyrir sér sem hinn eina sanna. Í þáttunum hefur þess þó ávallt verið vandlega gætt að tilgreina ekki í hvaða ríki þessi frægasta fjölskylda sjónvarpssögunnar býr og oft hafa brandararnir gengið einmitt út á það. Í einum þætti bendir Marge Simpson til dæmis á borgina á landakorti, en hausinn á Bart skyggir á kortið.

Matt Groening skapari Simpsons segir nú að upphaflega hafi hann byggt bæinn á Springfield í Oregon ríki. Upplýsingafulltrúi bæjarins segist reyndar í samtali við Ap fréttasotofuna að bæjarbúar hafi alltaf verið vissir um að þeirra Springfield væri heimabær fjölskyldunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×