Innlent

Kappaksturbraut í íbúðahverfi

Erla Hlynsdóttir skrifar
Íbúar við Ánanaust hafa fengið sér þrefalt gler til að einangra hávaða frá hraðakstri á nóttunni. Íbúi tók upp myndband þar sem ískur og vélahljóð heyrast greinilega.

Vegakaflinn sem um ræðir er á milli JL-hússins og Grandatorgs. Á torginu er einnig stundað svokallað „drift", þar sem afturendi bílanna er látinn skrika til með tilheyrandi hávaða.

Íbúi í nágrenninu tók myndband af þessu athæfi aðfararnótt Páskadags og birti á netinu.

Ekki er vitað hver tók myndbandið, en við ræddum við konu sem hefur búið á svæðinu til fjölda ára.

„Það er búið að vera svona í öll þessi ár, alltaf upp úr tólf er voða mikið um það," segir Helga Pálsdóttir, íbúi við Vesturgötu 73.

Það hefur samt haft lítið að segja að kalla til lögreglu.

Í myndbandinu má sjá þegar lögreglan kemur, bílarnir hægja á sér og mætir lögreglan meira að segja einum þeirra sem voru að skrika í hringtorginu. Og lögreglan er varla farin þegar þeir byrja aftur.

Einhverjir íbúanna hafa gripið til þess að reyna að hljóðeinangra íbúðirnar.

„Sumir eru komnir með þrefalt gler, þá heyra þeir minna," segir Helga og bendir á að margir séu hreinlega hræddir við þessa ökumenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×