Fótbolti

Átján leikmenn í bann fyrir að hagræða úrslitum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn í Malasíu.
Stuðningsmenn í Malasíu. Nordic Photos / AFP
Enn eitt hneykslið skekur asíska knattspyrnu en átján knattspyrnumenn og einn þjálfari í Malasíu hafa verið settir í bann vegna hagræðingu úrslita í leikjum. Reuters-fréttastofan fjallar um málið.

„Ég mun fela lögregluyfirvöldum að rannsaka og komast til botns í málinu," segir íþróttamálaráðherra Malasíu sem segir málið skammarlegt fyrir malasíska knattspyrnu.

Leikmennirnir átján, sem allir eru ungir að árum skv. Reuters, fengu tveggja til fimm ára bann en þjálfarinn var settur í ævilangt bann frá knattspyrnu.

Ímynd knattspyrnuhreyfinganna í Asíu er í molum. Ekki er langt síðan upp komst um spillingu í Kína og Suður-Kóreu og þá standa knattspyrnuyfirvöld í Indónesíu í stappi við Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA.

Þá varð frægt þegar þáverandi forseti asíska knattspyrnusambandsins, Mohamed Bin Hamman, þurfti að víkja úr starfi eftir að upp komst um mútugreiðslur af hans hálfu í aðdraganda forsetakosninga hjá FIFA á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×