Innlent

Yfirveðsettum heimilum fækkar milli ára

Athugun Ríkisskattstjóra fyrir stjórnvöld sýnir að yfirveðsettum heimilum hefur fækkað úr 25.876 í 14.412 frá árinu 2010 til 2011. Skuldir heimilanna hafa lækkað um 3 til 4 prósent eða um 9 prósent að raunvirði.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórnvöldum. Tilefni hennar er rannsóknarskýrsla Seðlabanka Íslands um skuldastöðu íslenskra heimila á árunum 2007 til 2011.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráherra, segir að niðurstöðurnar gefi skýr skilaboð. „Þær undirstrika meðal annars hversu dýr og óskilvirk aðgerð almenn skuldaniðurfærsla er," ritar Guðbjartur í tilkynningunni.

„Seðlabankinn áætlar að almenn niðurfærsla skulda um 20 prósent kosti um 260 milljarða króna en stærstur hluti hennar myndi renna til tekjuhæstu hópanna í samfélaginu og þá sem ekki eru í greiðsluvanda. Þetta hefur legið fyrir allan tímann. Þess í stað var gripið til almennra aðgerða með 110 prósenta leiðinni til að losa um yfirveðsetningu og liðka fyrir á húsnæðismarkaði."

Hægt er að lesa tilkynninguna í heild sinni á vef Stjórnarráðs Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×