Innlent

"Íslensk yfirvöld voru ósátt með komu sendiherrans"

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, telur að ríkisstjórnin hafi komið í veg fyrir að sendiherra Kanada á Íslandi tæki máls á ráðstefnu um gjaldmiðlamál. Kanadískir fjölmiðlar greina frá því að málið hafi valdið diplómatískri uppákomu í utanríkisráðuneytinu í Ottawa.

Alan Bones, sendiherra Kanada á Íslandi, átti að taka til máls á ráðstefnu Framsóknarfélags Reykjavíkur í dag um gjaldmiðlamál og hugmyndir um upptöku Kanadadollars hér á landi með tvíhliða samningum ríkjanna.

Í gær tilkynnti hins vegar utanríkisráðuneyti Kanada að sendiherrann myndi ekki mæta á ráðstefnuna. Í umfjöllun kanadíska dagblaðsins Toronto Star segir að málið hafi valdið diplómatískri uppákomu í utanríkisráðuneytinu í Ottawa sem síðan hafi ákveðið að banna sendiherranum að taka til máls á ráðstefnunni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, segir ljóst að íslensk stjórnvöld hafi komið í veg fyrir að sendiherrann tæki þátt í ráðstefnunni.

„Ég geri ráð fyrir því miðað við lestur fréttanna í Kanada þar sem talað er um diplómatíska uppákomu," sagði Sigmundur. „Það má ekki skilja öðruvísi en að íslensk stjórnvöld séu ósátt við þetta. Svo er lögð áhersla á að íslensk stjórnvöld verði að eiga frumkvæðið til að þetta geti haldið áfram. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist. Þegar verið var að ræða mögulega lánalínur og samninga um slíkt gagnvart Noregi þá skipti forsætisráðherra sér af því til að drepa þá umræðu svo þetta er allt saman af sama meiði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×