Innlent

Kirkjan sætti meira aðhaldi fyrir mistök

Ögmundur Jónasson segir ráðuneytið munu skoða málið í ljósi skýrslunnar og beina því áfram til Alþingis fyrir næstu fjárlagagerð.
Ögmundur Jónasson segir ráðuneytið munu skoða málið í ljósi skýrslunnar og beina því áfram til Alþingis fyrir næstu fjárlagagerð. Fréttablaðið/Valli
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir mistök hafa verið gerð varðandi fjárúthlutanir til þjóðkirkjunnar og annarra skráðra trúfélaga landsins. Ríkið hefur ekki greitt neinar verðbætur með úthlutunum sóknargjalda síðan eftir bankahrunið, eins og gilt hefur hjá öðrum opinberum stofnunum.

Niðurstaða nefndar á vegum innanríkisráðuneytisins sem skoðaði áhrif niðurskurðar á sóknir þjóðkirkjunnar leiddi þetta í ljós. Ögmundur segir að ljóst sé að skorið hafi verið meira niður hjá þjóðkirkjunni en öðrum opinberum stofnunum.

„Það er veruleikinn,“ segir Ögmundur. „Hvað sóknargjöldin áhrærir þá sættu þau niðurskurði, en hann varð meiri fyrir þá sök að engar verðbætur komu síðan til eins og gerist í opinberri starfsemi sem sætir niðurskurði og aðhaldi.“

Ráðherra segir að málið sé nú til skoðunar hjá ráðuneytinu, en ljóst sé að mistökin verði ekki leiðrétt í einu vetfangi. Hann segist ekki ætla að draga neinn til ábyrgðar í málinu, þar sem fjárlögin séu ákveðin af mörgum aðilum.

„Ég hafði heyrt gagnrýni úr röðum kirkjunnar manna, en það var ekki fyrr en þessi úttekt var gerð sem málið skýrðist fyrir alvöru,“ segir hann.

Spurður hvort þetta verði til þess að lög um samband ríkis og kirkju verði endurskoðuð, segir Ögmundur svo ekki vera.

„Það er ekki á döfinni að endurskoða þau lög þar sem kirkjan er sjálfstæð í raun,“ segir hann. „Frekari lagabreytingar eru ekki á döfinni á okkar borði.“ - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×