Innlent

Mistök reyndust Stapa lífeyrissjóði dýr

Magnús Halldórsson skrifar
Framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs bauðst til þess að hætta störfum þegar ljóst varð að sjóðurinn gæti orðið fyrir milljarðatjóni vegna þess að kröfu sjóðsins upp á ríflega fimm milljarða í bú Straums fjárfestingarbanka var lýst of seint. Mistök á lögmannsstofu reyndust sjóðnum dýr.

Hæstiréttur vísaði í gær frá kröfu Stapa lífeyrissjóðs í bú Straums fjárfestingarbanka, sem eftir að hafa lokið nauðasamningi er rekinn undir nafninu ALMC. Krafan var upp á liðlega 5,5 milljarða króna, en virði hennar miðað algengt gangverð krafna í bú Straums á markaði er um tveir milljarðar króna. Lögmannsstofa á Akureyri, sem vann fyrir Stapa, lýsti kröfunni í bú Straums of seint og því var hún ekki tekin til greina.

Krafan var þegar færð niður í bókum Stapa árið 2009, og hefur tjónið því þegar verið tekið út. Framkvæmdastjóri Stapa, Kári Arnór Kárason, bauðst til þess að hætta störfum þegar ljóst varð að mistökin gætu valdið milljarðatjóni fyrir sjóðinn, en stjórn sjóðsins taldi það ekki þjóna neinum tilgangi.

Upphæðin er umtalsverð há í samanburði við stærð Stapa, en stærsti iðgjaldagreiðandinn í sjóðinn er Akureyrarkaupstaður.

Tjónið nemur niðurfærslu á réttindum upp á 1,5 prósent, en heildarniðurfærslan hjá sjóðnum eftir hrun hefur verið liðlega 13 prósent. Í lok síðasta árs var neikvæð tryggingarfræðileg staða lífeyrissjóðsins ríflega 16 milljarðar króna, eða sem nemur um 7,5 prósentum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×