Innlent

Vegagerðin fylgist með fóðurflutningum

Farmur vöruflutningabíla á að vera tryggilega festur og hann má ekki byrgja ökumanni sýn.
Farmur vöruflutningabíla á að vera tryggilega festur og hann má ekki byrgja ökumanni sýn. Fréttablaðið/Valli
Undanfarin ár hefur borið á því að of miklu hafi verið hlaðið á vöruflutningabíla sem flytja áburð, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

„Að gefnu tilefni mun umferðareftirlit Vegagerðarinnar á næstunni veita þessum flutningum sérstaka athygli í þeim tilgangi að fyrirbyggja og fækka brotum,“ segir þar. Með því á bæði að tryggja aukið umferðaröryggi og vernda vegakerfið.

„Nú er hafinn tími áburðarflutninga um allt land. Á undanförnum árum hefur talsvert verið um þungabrot tengd þessum flutningum auk þess sem frágangi farms hefur í mjög mörgum tilfellum verið verulega áfátt,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Bent er á að vegna leysinga sé vegakerfið víða viðkvæmt og í mörgum tilfellum þörf á þungatakmörkunum til verndunar. „Mikilvægt er að flutningsaðilar hafi þetta í huga og kynni sér vel þær þyngdir sem leyfðar eru hverju sinni til að komist verði hjá kærum og fjárútlátum vegna sekta.“

Þá minnir Vegagerðin á reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms. Þar segir að farm ökutækis skuli skorða tryggilega og festa við ökutækið og ganga þannig frá að byrgi ekki útsýni ökumanns.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×