Innlent

80 prósent sjúklinga á Vogi eru börn alkóhólista

Gunnar Smári Egilsson er formaður SÁÁ.
Gunnar Smári Egilsson er formaður SÁÁ.
"Ef að kona fer í meðferð fyrir 24 ára aldur út af kannabisfíkn, eru næstum því 50 prósent líkur á að sonur hennar geri það líka," sagði Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ, í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

„Þegar svona tölur liggja á borðinu finnst fagfólkinu inni á SÁÁ nauðsynlegt að aðlaga þjónustuna að þessari staðreynd, að það er verið að vinna miklu meira með fjölskyldunum. Það er verið að vinna með börnum alkóhólista, beina forvörnunum að þeim. Það er augljóslega sá hópur sem er í mestri hættu. 70 til 80 prósent af þeim sem koma inn á Vog eru börn alkahólista," sagði Gunnar Smári og bendir á að nauðsynlegt sé að veita fjölskyldum aðstoð þegar börn koma úr meðferð.

Þá bendir hann á að frá 1995 hafi ólögleg vímuefni verið það aðgengileg að allir krakkar á framhaldsskólaaldri gátu keypt sér hass eða amfetamín ef þau vilja. „Áður en það kemur að hruninu náðu menn aðferð til að rækta gras. Þegar gengið fellur þá hækkar innflutningur og framleiðslan færist inn í landið. Á undanförnum 15 árum er hass og marijúana orðið að aðalvandanum hjá yngsta hópnum," sagði Gunnar Smári og hélt áfram.

„Fulli drengurinn sem slóst á sveitaballinu, þegar aldraðir menn voru ungir, það er ekki svo algengt í dag. Þeir ungu krakkar sem eru í dagneyslu á vímuefnum eru flestir í hassi. Það er fólkið sem er að koma inn á Vog upp úr tvítugu og eru búið að missa af síðunglingsárunum sínum, tímanum þegar þau áttu að vera í framhaldsskóla og áttu að verða að fullorðnu fólki. Og þetta fólk kemur algjörlega steikt inn á Vog."

Hægt er að hlusta á fróðlegt viðtal við Gunnar Smár í hljóðbrotinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×