Lífið

Ný bardagaíþrótt fyrir hvern sem er

Hakido-æfingarnar í Combat Gym hófust fyrst á mánudaginn og eru þegar orðnar vinsælar. Fréttablaðið/valli
Hakido-æfingarnar í Combat Gym hófust fyrst á mánudaginn og eru þegar orðnar vinsælar. Fréttablaðið/valli
„Hapkido er bardagalist ættuð frá Kóreu og að mörgu leyti náskyld taekwondo og aikido. Það má líkja þessu við innanhúsfótbolta og utanhúsfótbolta, eiginlega sama íþróttin en öðruvísi reglur, aðferðir og spilamennska,“ segir Sigursteinn Snorrason, yfirþjálfari Hapkido Iceland, sem er nýkominn heim frá Kóreu þar sem hann bjó og vann sem taekwondo-þjálfari.

Þetta er í fyrsta skipti sem hapkido er kennt hérlendis og segir Sigursteinn hvern sem er geta iðkað íþróttina. „Þeir sem eru með reynslu úr bardagaíþróttum standa tvímælalaust betur að vígi þegar þeir byrja í Hakido en það eru mjög margir að byrja sem eru ekki með neina reynslu. Eins og er kennum við öllum eins og byrjendum en með tímanum förum við að skipta fólki niður eftir getu,“ segir hann.

Fatnaðurinn í hapkido er sams konar galli og í karate, nema svartur og með merkingar sem gefa til kynna hvaða íþrótt sé verið að stunda og hvar. „Það er ekki enn hægt að fá gallana á Íslandi en við erum í góðu sambandi við birgi í Kóreu og getum pantað beint í gegnum hann. Við hendum samt engum út þó hann mæti á stuttbuxum, það má alveg,“ segir Sigursteinn og hlær.

Að sögn Sigursteins er hapkido fyrst og fremst sjálfsvarnaríþrótt sem leggur mikið upp úr heimspeki og hugleiðslu og með meira af reglum og hefðum en eru í MMA, blönduðum bardagaíþróttum. 16 ára aldurstakmark er til að æfa íþróttina og skilyrði að vera með punghlíf, tanngómshlíf og hlífar fyrir hendur og fætur á æfingum.

Hapkido Iceland býður upp á ókeypis æfingar í Combat Gym Ármúla 1 út júlímánuð, Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni hapkido.is.- trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.