Fótbolti

Gylfi: Löngu kominn tími á sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi á landsliðsæfingu í vikunni.
Gylfi á landsliðsæfingu í vikunni. Mynd/Anton
Gylfi Þór Sigurðsson vill fá gott veganesti úr leiknum í kvöld fyrir viðureign Íslands gegn Kýpverjum ytra á þriðjudagskvöldið.

Gylfi verður í lykilhlutverki í leik íslenska liðsins í kvöld en hann er sá fyrsti hjá liðunum í undankeppni HM 2014.

„Það er fyrir löngu kominn tími á sigur. Þetta er fyrsti leikurinn í nýrri keppni og það væri gott að byrja á sigri. Þá förum við með sjá sjálfstraust til Kýpur og vonandi hægt að gera góða hluti þar," sagði Gylfi.

„Það er tímabært að við gerum eitthvað af viti, sérstaklega á heimavelli. Við sýndum gegn Frökkum og Svíum í sumar að við erum aðeins skárri en í síðustu keppni þar sem við fengum eitt stig. Þetta verður spennandi í fyrstu tveimur leikjunum."

Hann segist hafa orðið var við viðhorfsbreytingu gagnvart landslðinu. „Umfjöllunin er aðeins jákvæðari og fólk virðist átta sig á því að það þurfi að mæta á völlinn og skapa stemningu. Það var fólk báðum megin í stúkunni síðast [gegn Færeyingum] og verður gaman að sjá hvernig mætingin verður nú."

Gylfi gekk í raðir Tottenham í sumar en liðið er skipað mörgum sterkum leikmönnum. Þrátt fyrir það er liðið einungis með tvö stig eftir fyrstu þrjá leikina.

„Við fengum marga góða leikmenn í glugganum og óskandi að liðið nái að slípa sinn leik sem fyrst svo við getum farið að vinna einhverja leiki. Mér hefur sjálfum gengið þokkalega, þó svo að ég hefði viljað skora í fyrstu 2-3 leikjunum."

„En stundum er þetta svona. Þetta kemur í hrinum. Við verðum bara að hafa trú á þjálfaranum og okkur sjálfum. Þá kemur þetta."

Sem fyrr segir eru margir góðir leikmenn hjá Tottenham en Gylfi óttast ekki samkeppnina. „Ég vissi að það væru leikmenn á leiðinni og aðrir að fara. Þetta er af hinu góða. Við viljum vera með tvo leikmenn í hverri stöðu enda mikið af leikjum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×