Innlent

Segir mikilvægt að sveitarfélögin taki þátt

Mercedes Brasso, forseti Svæðanefndar ESB, segir mikilvægt fyrir íslensk sveitarfélög að taka þátt í aðildarviðræðunum.
Mercedes Brasso, forseti Svæðanefndar ESB, segir mikilvægt fyrir íslensk sveitarfélög að taka þátt í aðildarviðræðunum. Fréttablaðið/Stefán
„Það er afar mikilvægt fyrir Ísland að sveitarstjórnir og svæðisbundin yfirvöld taki virkan þátt í aðildarviðræðum Íslands og ESB.“

Þetta segir Mercedes Bresso, forseti Svæðanefndar Evrópusambandsins (ESB), í samtali við Fréttablaðið. Bresso var stödd hér á landi þar sem hún fundaði með sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB og fulltrúum íslenskra sveitarfélaga um aðildarviðræðurnar.

Bresso sagði að á Íslandi eins og öðrum löndum sé afar mikilvægt að vinna gegn fólksflótta af dreifbýlli svæðum til stórborga.

„Þar skiptir byggðastefna miklu máli og getur aðstoðað við að koma á laggir verkefnum sem geta eflt atvinnulíf á dreifbýlli svæðum.“

Hún sagði ESB leggja mikla áherslu á þau mál, sem og að efla tækifæri almennings í aðildarlöndunum til að móta stefnu sambandsins. Svæðanefnd ESB samanstendur af 344 fulltrúum frá sveitarstjórnum í öllum löndum sambandsins. Markmið nefndarinnar er að virkja fulltrúa minni stjórnsýslueininga til að móta löggjöf ESB, enda kemur drjúgur hluti hennar til framkvæmda á því stigi.

Aðspurð hvort rödd Íslands yrði ekki hjáróma í þessum fjölmenna hópi, kæmi til aðildar, sagði Bresso að svo þyrfti ekki að vera. „Kæmi til aðildar Íslands fenguð þið um sex fulltrúa í Svæðanefndinni en Þýskaland er með 24 fulltrúa þannig að fámennu löndin hafa töluvert vægi og geta nýtt sér það vel.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×