Innlent

Vill skaðabætur eftir að upplýsingar úr sjúkraskrá birtust í Læknablaðinu

Boði Logason skrifar
"Ég kom þessu máli ekkert við en öll umfjöllunin snérist um mig," segir Páll Sverrisson
"Ég kom þessu máli ekkert við en öll umfjöllunin snérist um mig," segir Páll Sverrisson
„Ég kom þessu máli ekkert við en öll umfjöllunin snérist um mig," segir Páll Sverrisson sem hefur höfðað skaðabótamál á hendur Læknafélagi Íslands og ritstjóra Læknablaðsins. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Síðastliðið haust birtist umfjöllun í Læknablaðinu sem snéri að deilu tveggja lækna, sem Páll flæktist inn í. Í blaðinu var birtur úrskurður siðanefndarinnar, þar sem annar læknirinn hafði kært hinn. Í blaðinu birtustu viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrám Páls, upplýsingar sem hann vissi ekki einu sinni um sjálfur.

Páll fékk ábendingu um frétt á Pressunni þar sem fjallað var um deiluna á milli læknanna og umfjölluninni kæmu fram upplýsingar úr sjúkraskrám hans. Páll var ekki nafngreindur í blaðinu en hann segir að allir í litlu sjávarplássi á Austurlandi þar sem hann bjó, hafi getað lesið á milli línanna og séð um hvern var fjallað.

Málið fór fyrir Persónuvernd sem komst að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að birta upplýsingarnar úr sjúkraskrám Páls - burt séð frá því hvort hann hafi verið nafngreindur eða ekki.

Í öðrum úrskurði í málinu segir: „Óheimilt er að heilbrigðisstarfsmenn á Heilbrigðisstofnun Austurlands noti þann aðgang sem þeir hafa að sjúkraskrám vegna ágreiningsmála sem þeir sjálfir eiga persónulega aðild að og ekki varða starfsemi stofnunarinnar."

Eins og fyrr segir var málið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í morgun og fer aðalmeðferðin fram 13. desember næstkomandi.

Hér má heyra viðtal við Pál sem tekið var í þættinum Í bítið á Bylgjunni í desember í fyrra, eftir að málið kom upp.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.