Tónlist

Stafnbúi Steindórs og Hilmars kominn út

Stafnbúi Steindórs Andersen og Hilmars Arnar Hilmarssonar hefur verið í sex ár í undirbúningi.
Stafnbúi Steindórs Andersen og Hilmars Arnar Hilmarssonar hefur verið í sex ár í undirbúningi.
Steindór Andersen og Hilmar Örn Hilmarsson hafa sent frá sér rímnageisladiskinn Stafnbúa. Á diskinn hefur Steindór, einn þekktasti kvæðamaður þjóðarinnar, valið tólf stemmur sem hann flytur við tónlist kvikmyndatónskáldsins og allsherjargoðans Hilmars Arnar.

Þeir Steindór og Hilmar Örn fluttu Hrafnagaldur Óðins með hljómsveitinni Sigur Rós í Laugardalshöllinni fyrir áratug við miklar og góðar undirtektir. Hlutu tónleikarnir meðal annars Menningarverðlaun DV það árið. Stafnbúi er framhald á því verkefni, en geisla diskurinn hefur verið heil sex ár í undirbúningi.

Margt góðra gesta kemur fram á Stafnbúa, meðal annarra Sigríður Thorlacius söngkona, Guðmundur Pétursson gítarleikari, Þórir Baldursson orgelleikari, Páll frá Húsafelli á steinhörpur, Örn Magnússon á langspil og symfón og fjöldi strengjaleikara.

Geisladisknum fylgir áttatíu blaðsíðna bók sem inniheldur öll kvæðin sem flutt eru ásamt ágripi úr sögu rímnakveðskapar og glæsilegum ljósmyndum úr náttúru Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×