Innlent

"Hér verður ekki farið að stunda óreglu“

BBI skrifar
Guðmundur Hallvarðsson og Jón Gnarr skáluðu í Skálafelli í morgun.
Guðmundur Hallvarðsson og Jón Gnarr skáluðu í Skálafelli í morgun. Mynd/Hugrún Halldórsdóttir
„Hér verður ekki farið að stunda neina óreglu," segir Guðmundur Hallvarðsson, stjórnarformaður Hrafnistu um nýjan veitingasal Hrafnistu sem nefndur er Skálafell. Salurinn hefur haft vínveitingaleyfi síðan í morgun.

Guðmundur útskýrir að nafngiftin vísi ekki til skála sem klingja fullar af víni. Áður fyrr var skáli nokkur framan við matsalinn og dregur hann nafn sitt af skálanum, ekki vínglösum.

Guðmundur minnir á að vistmenn Hrafnistu séu allir eldri en tvævetur - bókstaflega - og því sé óþarfi að hafa áhyggjur af því að þeir kunni ekki að fara með vín. Reyndar fannst Guðmundi og þáttarstjórnendum Reykjavíkur Síðdegis fremur spaugilegt eftir á að hyggja hversu líflegar umræður spunnust um þennan sal fyrr í sumar, en Guðmundur var gestur í útvarpsþættinum í dag.

Guðmundur segir að veitingasalurinn muni lífga upp á tilveruna á Hrafnistu og heimsóknarferðir fólks til aldraðra ættingja verði skemmtilegri:

Þú hefur farið að heimsækja einhvern ættingja þinn á vistheimili. Þá hefur íverustaðurinn verið herbergið. Þú hefur setið við rúmgaflinn. Það hefur svosem ekki verið mikil tilbreyting nema þú hefur reynt að halda uppi samræðum. En nú geturu komið hingað á Hrafnistu og heimsótt þína ættingja og þá geturðu bara sagt „Heyrðu eigum við ekki bara að kíkja niður á kaffihús og fá okkur vöfflu með rjóma. Eða eigum við að borða saman í hádeginu og fá okkur eitt rauðvínsglas, eða hvað?"

Þetta sagði Guðmundur í þættinum í dag en innslagið í heild má nálgast á hlekknum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×