Innlent

Hátt í 300 símtöl frá fólki í sjálfsvígshættu - yfir 30 látast árlega

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hátt í þrjú hundruð símtöl bárust hjálparsíma Rauða krossins 1717 í fyrra frá fólki sem var í sjálfsvígshættu. Þetta segir Haukur Árni Hjartarson, verkefnastjóri hjálparsímans. Hann heldur erindi í safnaðarheimili Dómkirkjunnar við Tjörnina á alþjóðadegi sjálfsvígsforvarna sem er á mánudaginn.

Ár hvert er 10. september tileinkaður forvörnum vegna sjálfsvíga víða um heim. Hér á landi er dagurinn einnig helgaður minningu þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Á vef Landlæknisembættisins kemur fram að talið er að í heiminum öllum verði sjálfsvíg á 40 sekúndna fresti. Tíðni sjálfsvíga á Íslandi sveiflast frá ári til árs og er á bilinu 33-37 sjáfsvíg á ári undanfarin ár.

Haukur mun segja frá því hvernig hjálparsíminn getur hjálpað fólki í sjálfsvígshugsunum. „Svo mun ég aðeins fara yfir hvernig sjálfboðaliðarnir okkar eru þjálfaðir til að taka á móti þessu. Þetta getur verið erfitt að hlusta á manneskju tala um að taka sitt eigið líf. það er svona það helsta sem ég mun tala um," segir Haukur.

Um átta til tíu sjálfboðaliðar svara í símann hjá Rauða krossinum á hverjum sólarhring, en í heild berast hjálparsímanum um 21 þúsund símtöl á ári. Vert er að hvetja þá sem kunna að geta nýtt sér hjálparsímann til þess að hringja.



Hér má sjá dagskrá forvarnardagsins á mánudaginn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×