Innlent

Skorið niður um á fimmta hundrað milljónir hjá sérstökum saksóknara

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Skorið verður niður hjá sérstökum saksóknara um tæpan hálfan milljarð króna í fjárlögum næsta árs, ef stjórnvöld fylgja áætlunum embættisins sjálfs. Áætlanir embættisins gera ráð fyrir að starfsmönnum þess fækki niður í 50 á næsta ári, en þeir eru 110 í dag.

Heildarútgjöld ríkisins til embættis sérstaks saksóknara samkvæmt fjárlögum ársins 2012 námu 1,3 milljörðum króna.

Nú liggur fyrir að útgjöld til embættisins verða skert um hundruð milljóna króna á næsta ári.

Samkvæmt minnisblaði, sem Ólafur Þór Hauksson, ritaði Rögnu Árnadóttur, þáverandi dómsmálaráðherra í maí 2010 var gert ráð fyrir að útgjöld embættis sérstaks saksóknara á árinu 2012 yrðu 1280 milljónir króna en kostnaðurinn myndi síðan lækka um 490 milljónir á árinu 2013 niður í 790 milljónir króna.

Í minnisblaðinu er gert ráð fyrir að starfsmönnum embættisins fækki niður í 50 á árinu 2013, en í dag starfa 110 hjá embættinu.

Í þessu samhengi skal hafa í huga að 14 stöðugildi færðust til embættisins við sameiningu þess við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Sé tekið mið af þessu ættu starfsmennirnir að verða 64 á næsta ári.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er minnisblaðið frá embættinu notað sem viðmið í fjárlagagerð næsta árs í innanríkisráðuneytinu. Sé því fylgt má búast við að skorið verði niður um á fimmta hundrað milljónir króna hjá embættinu á næsta ári.

Embættinu er heimilt að flytja fjármuni milli ára ef það ráðstafar ekki öllum þeim peningum sem það hefur til umráða samkvæmt fjárlögum, en sparnaður þessa árs gæti því komið til móts við niðurskurð næsta árs.

Ljóst er að áætlanir embættisins um ákærur hafa ekki gengið eftir. Dómstólaráð vann áætlun um málafjölda í minnisblaði til dómsmálaráðherra í júlí 2010 en samkvæmt henni áttu að berast dómstólunum að meðaltali 27 ákærur á ári frá sérstökum saksóknara árin 2010-2014 eða samtals 90 mál. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×