Innlent

Átök í lögreglubíl þegar fangi reyndi að yfirgefa bílinn - myndband

Karlmaður missti stjórn á sér í lögreglubíl skömmu fyrir hádegi í dag. Maðurinn reyndi að yfirgefa bílinn og upphófust þá átök á milli lögreglunnar og mannsins þar sem þeir biðu á gatnamótum við Snorrabraut. Tveir lögreglumenn voru í bílnum auk mannsins, sem var verið að flytja frá lögreglustöðinni í Hafnarfirði.

Samkvæmt varðstjóra lögreglunnar í Hafnarfirði var um hefðbundna flutninga að ræða. Maðurinn hafði verið handtekinn í austurhluta Reykjavíkurborgar, fengið að gista til skamms tíma í Hafnarfirði en til stóð að flytja hann í fangageymslur lögreglunnar á Hverfisgötunni.

Vegfarandi sem átti leið hjá í morgun tók upp meðfylgjandi myndskeið en þar má sjá þegar fleiri lögreglubílar eru komnir á vettvang til þess að aðstoða lögreglumennina.

Enginn slasaðist í átökunum, lögreglumönnunum tókst að yfirbuga manninn áður en aðstoðin barst. Þó er ljóst að töluverð hætta var á ferð, ekki síst í ljósi þess að mikil átök voru í bílnum samkvæmt sjónarvotti sem Vísir ræddi við.

Sjónarvotturinn sem tók myndbandið upp sagði í samtali við Vísi að átökin inn í bílnum hefðu verið heiftarleg. Ekki er ljóst hvað manninum í lögreglubílnum gekk til. Lögreglan telur líklegt að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna.

Þegar rætt var við Sigurbjörn Víði Eggertsson, yfirlögregluþjón, sagði hann að maðurinn væri núna staddur í fangageymslum lögreglunnar á Hverfisgötu. Spurður hvort það sé þörf á einhverskonar grind til þess að aðskilja farþega í aftursæti frá ökumanni, svaraði Sigurbjörn að slíkt hlyti að vera umhugsunarefni eftir þetta atvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×