Innlent

Rekja umferðaróhöpp til hjólreiðafólks

Í gær voru tilkynnt til arekstur.is á annan tug óhappa þar af voru tvö umferðaróhöpp sem urðu vegna umferðar hjólreiðafólks.

Í tilkynningu frá arekstur.is kemur fram að fyrra óhappið varð með þeim hætti að hjólreiðamaður var á ferð á Miklubraut í austur á hægri akrein þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 km/klst.

Með því að hjóla á akreininni varð þar allhörð aftanákeyrsla en ökumaður þurfti að nauðhemla til að lenda ekki á hjólreiðamanninum og í kjölfarið náði bifreiðin fyrir aftan ekki að hemla í tæka tíð.

Síðara óhappið varð í Hafnarfirði þar sem hjólreiðamaður hjólaði á þó nokkurri ferð viðstöðulaust yfir gangbraut.

Það varð til þess að bíll sem kom aðvífandi þurfti að nauðhemla til að aka ekki á hjólreiðamanninn og fékk við það annan bíl aftan á sig.

Arekstur.is hvetur ökumenn og ekki síður hjólreiðafólk að vanda sig betur í umferðinni og sýna tillitssemi. Starfsmenn Árekstur.is segja að hjólreiðafólk sjáist oft á tíðum ekki vel í umferðinni og það eigi ekki heima á stofnbrautum þar sem hámarkshraði er mikill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×