Fótbolti

Alfreð og Indriði á skotskónum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Helsingborg vann fínan sigur, 3-2, á Hacken í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en Alfreð Finnbogason skoraði fyrsta mark leiksins.

Helsingborg var með ákveðið frumkvæði í leiknum og alltaf einu skrefi á undan gestunum í Hacken. Lið Hacken kom samt sem áður alltaf til baka og náðu að jafna metin í 1-1 og 2-2 en sigurmark Helsingborg kom þegar um hálftími var eftir af leiknum.

Daniel Nordmark skoraði sigurmark leiksins en Helsingborg er komið í fimmta sæti deildarinnar með 16 stig átta stigum á eftir toppliðinu Elfsborg.

Í norsku úrvalsdeildinni var annar Íslendingur á skotskónum en Indriði Sigurðsson skoraði annað mark Viking frá Stavanger í 2-1 sigri þeirra á Sogndal.

Mark Indriða kom þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum en Sogndal náði að minnka muninn rétt í blálokin. Viking er 10. sæti deildarinnar með 11 stig en Rosenborg er í því efsta með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×