Innlent

Íslenskur hagfræðingur tekur þátt í Ólympíuleikunum

Frá lokahátíð Ólympíuleikanna í Aþenu árið 2004.
Frá lokahátíð Ólympíuleikanna í Aþenu árið 2004.
„Ég veit ekki alveg hvað ég er að fara að gera, það er enn mikil leynd í kringum þetta," segir einn óvæntasti þátttakandi Íslendinga í Ólympíuleikunum, en hagfræðingurinn Þóra Helgadóttir mun þó ekki keppa fyrir hönd Íslands, hún mun dansa í lokaathöfninni á Ólympíuleiknum í ágúst næstkomandi.

Þóra fór í prufur í Lundúnum á dögunum ásamt hundruðum, ef ekki þúsundum annarra, og leist dómnefndinni svo vel á hana að hún var valin til þess að vera dansari í lokasýningunni, sem er einhver glæsilegasta athöfn sem finna má á íþróttaviðburðum.

„Upphaflega prófaði ég allskonar hluti fyrir sýninguna, en svo var ég boðuð í dansprufurnar," lýsir Þóra en hún hefur lengi stundað dans, meðal annars kennt hann hér á landi. Þóra hefur verið búsett í Bretlandi síðan árið 2007 en hún vinnur sem hagfræðingur hjá breska fjármálaráðuneytinu, þar sem hún sér um hagspár fyrir ráðuneytið.

Hún segir gríðarlega leynd hvíla á atriðinu en hún hafi fengið æfingaáætlun í hendur á dögunum. Þannig þarf Þóra að mæta á 8 æfingar sem hefjast í júní næstkomandi. Þóra segir að hún hafi bara viljað taka þátt í Ólympíuleikunum með einhverjum hætti, því hafi hún ákveðið að prófa að fara í prufur.

„Ég er nú samt með smá fyrirvara á þessu. Maður veit ekki hvað gerist og það er langt í athöfnina," segir Þóra.

Alls hafa fimm Íslendingar tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í sumar, auk hanboltalandsliðsins. Það eru þau Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari, Ragna Ingólfsdóttir badmintonkona, Kári Steinn Karlsson maraþonhlaupari, Eygló Ósk Gústafsdóttir, sundkona úr Sundfélaginu Ægi, og kúluvarparinn Óðinn Björn Þorsteinsson úr FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×