Innlent

Guðbjartur: Tókst að verja lágtekjuhópana á kostnað hinna

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands um áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar staðfesta árangur stjórnvalda í tekjujöfnun. Tekist hafi að verja lágtekjuhópa á kostnað hinna.

Samkvæmt skýrslunni, sem unnin var af Stefáni Ólafssyni og Arnaldi Sölva Kristjánssyni, rýrnuðu kjör lágtekjufólks á árunum 2008-2010 um 9 prósent á móti 38 prósent rýrnun hjá hæsta tekjuhópnum.

Skattbyrði hátekjuhópa hefur aukist til muna á sama tímabili á meðan skattbyrði lágtekjuhópa hefur lækkað. Þá segir í skýrslunni að hruni fjármálakerfisins hafi fylgt ein stærsta samdráttarkreppa lýðveldistímans en botni kjaraskerðingar hafi verið náð árið 2010 og nú aukist hagvöxtur og einkaneysla.

„Ég held að það sé mikilvægt, það er að segja að þrepaskattar og aðgerðir vinnumarkaðrins hafa leitt til þess að þó að allir hafi orðið að gjalda þá hefur tekist að verja lágtekjuhópana á kostnað hinna," segir Guðbjartur.

Hann segir ánægjulegt að sjá í þessarri skýrslu að Íslandi hafi tekist betur til en öðrum löndum að vinna sig upp úr kreppunni og þrátt fyrir erfitt umhverfi séum við á réttri leið.

„Þetta sjá erlendir aðilar mjög vel þegar þeir skoða okkar hagtölur og niðurstöður, það hefur gengið erfiðlegra að sýna Íslendingum fram á þetta, þar sem margir eiga erfitt og íslenska krónan og verðtryggingin hafa valdið mörgum búsifjum en við erum á réttri leið og þurfum að feta þá leið til betra samfélags." segir ráðherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×