Innlent

Jóhanna viss um að álit þjóðarinnar á ESB muni batna

Jóhanna Sigurðardóttir segist viss um að álitið á Evrópusambandsaðild Íslands muni aukast þegar nær dragi að samningsniðurstöðu í málinu. Þetta sagði hún í svari til Sigurðar Inga Jóhannssonar alþingismanns Framsóknarflokksins sem spurði forsætisráðherra að því í dag á Alþingi hvort ekki væri kominn tími til að setja aðildarviðræðurnar við ESB í bið.

Sigurður Ingi vísaði til þess að allir stjórnmálaflokkar væru andsnúnir aðild, Samtök iðnaðarins hefðu nýverið skipt um kúrs í málinu og að endingu til nýlegrar skoðannakönnunar sem sýnir lítinn stuðning meðal almennings við aðild. Sigurður benti á Möltu sem dæmi um land sem hefði gert fjögurra ára hlé á aðildarviðræðum áður en ákveðið hefði verið að ganga í sambandið.

Jóhanna sagði í andsvari sínu að kannanir í málinu hefðu alla tíð sveiflast mjög mikið. Skýringarnar nú á því hversvegna landsmenn séu afhuga aðild væru ljósar, og nefndi hún makríldeiluna og meðalgöngu ESB í Icesave-málinu til sögunnar. Hún sagðist hinsvegar trúa því að þessi afstaða meginþorra landsmanna sé tímabundin og að menn skipti um skoðun þegar nær dragi niðurstöðu í samningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×