Innlent

Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu ekki verið rædd í nefndinni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birgir Ármannsson er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórnskpunar- og eftirlitsnefnd.
Birgir Ármannsson er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórnskpunar- og eftirlitsnefnd. mynd/ stefán
Ný tillaga meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og Guðmundar Steingrímssonar um að þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fari fram í haust hefur ekki verið rædd í nefndinni. Þetta segir Birgir Ármannsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Hann segir þó að tillagan komi ekki á óvart, en upphaflega vildi meirihlutinn að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram samhliða forsetakosningum. Ekki náðist samkomulag um þá tillögu þegar um hana var rætt í lok mars.

„Ég átti von á því að einhver tillaga í þessa veru kæmi fram miklu fyrr," sagði Birgir. Hann segir að afstaða sjálfstæðismanna varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs sé nokkuð skýr. „Við höfum frá upphafi verið þeirrar skoðunar að það væri út í bláinn að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur sem ekki eru fullbúnar og höfum alltaf talið að það væri eðlilegri röð á hlutunum að þingið ynni með tillögurnar og léti fara yfir þær á faglegum og fræðilegum forsendum áður en efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram," segir Birgir.

„Það er alveg ljóst að það er meirihluti fyrir þessu í þinginu," segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Aðspurð segir hún ekkert hafa verið leitað eftir samkomulagi við minnihlutann um málið. „En yfirleitt er það þannig að mál í þinginu eru útkljáð í atkvæðagreiðslu ef það er ekki samkomulag. Ég á þá von á því að það verði þannig í þessu nema að eitthvað annað gerist," segir Valgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×