Innlent

Segir mögulegar refsiaðgerðir vegna makrílveiða vera stríðsyfirlýsingu

Löggjöf sem Evrópusambandið undirbýr, sem felur í sér mögulegar refsiaðgerðir vegna makrílveiða Íslendinga, er yfirlýsing um viðskiptastríð að mati formanns Sjálfstæðisflokksins.

Evrópusambandið hefur um nokkur skeið unnið að löggjöf þar sem tekið er á ósjálfbærum veiðum annarra ríkja líkt og makrílveiðum Íslendinga. Í þeim felst heimild til að beita þær þjóðir sem stunda slíkar veiðar refsiaðgerðum eins og löndunarbanni, hafnarbanni og viðskiptaþvingunum.

„Nú er það svo að Evrópusambandið hefur lýst því yfir að þeir myndu herða aðgerðir vegna þess að deilan er óleyst," segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. „Ég held að það hafi engan órað fyrir því að við myndum sjá viðlíka aðgerðir og eru hér í undirbúningi. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta sé nánast yfirlýsing um viðskiptastríð við okkur Íslendinga ef samningar nást ekki."

Bjarni segir um grófa og alvarlega hótun að ræða við hagsmuni Íslendinga í sjávarútvegi.

„Það er einsýnt að verði þetta niðurstaðan af hálfu Evrópusambandsins þá mun það ekki geta haft jákvæð áhrif í nokkrum skilningi," segir Bjarni. „Sérstaklega ekki á viðræðurnar um lausn á makríldeilunni vegna þess að það er ekki hægt að láta bjóða sér það að standa undir hótunum líkt og birtist í þessari reglugerð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×