Innlent

Lækningamáttur aspirins rannsakaður

mynd/wikipedia
Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir, var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hann ræddi við þáttastjórnendur um jákvæð og neikvæð áhrif aspiríns.

Niðurstöður nýlegra rannsókna á aspiríni, eða magnýl eins og það er kallað hér á landi, gefa til að kynna að virk efni lyfsins geti hægt á eða komið í veg fyrir að æxli breiðist út.

Síðustu mánuði hefur Vilhjálmur skrifað um niðurstöður þessara rannsókna.

„Menn horfa nú til þessa varnarþáttar gegn krabbameini ristli," segir Vilhjálmur. „Nú eru að birtast rannsóknir sem sýna óyggjandi að tíðni ristilkrabbameins lækkar um 20% á fimm árum ef lyfið er tekið inn að staðaldri."

Vilhjálmur bendir á að aspirín sé afar gamalt lyf - í raun eitt það elsta sem læknisfræðin hefur notast við. Hann segir að neikvæðir eiginleikar lyfsins séu sannarlega til staðar.

„Þetta lyf veldur hættulegum aukaverkunum," segir Vilhjálmur. „Til dæmis getur það valdið sáramyndunum í maga og blæðingahættu."

Hægt er að hlusta á áhugavert viðtal við Vilhjálm hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×