Innlent

Fá ekki pláss á hjúkrunarheimilum

Fjörtíu og fimm sjúklingar á Landspítalanum komast hvergi þar sem þeir fá ekki pláss á hjúkrunarheimili. Hjúkrunarrýmum hefur frá árinu 2010 fækkað um rúmlega hundrað og fimmtíu.

Nýjar tölur Landspítalans sýna að á fyrstu þremur mánuðum mársins fjölgaði sjúklingum sem lágu inni á spítalanum um nær tíu prósent eða um 57 á hverjum degi.

„Ein af skýringunum er sú að við eigum erfiðara með að koma fólki sem lokið hefur meðferð á spítalanum inn á hjúkrunarheimili en áður. Þannig það bíða núna til dæmis um 45 sjúklingar inni á spítalanum eftir plássi á hjúkrunarheimili en það er töluvert meira en á sama tíma í fyrra. Það voru á milli 20 og 25 að meðaltali og hefur verið síðustu tvö árin. Þetta hefur aukist mjög mikið síðust þrjá til fjóra mánuði," segir Björn Zoega, forstjóri Landspítalans.

Björn segir hluta af vandamálinu vera skort á rúmum á hjúkrunarheimilum. Hjúkurnarrýmum hefur frá árinu 2010 fækkað um rúmlega 150.

„Rúmin hjá okkur eru töluvert mikið dýrari það segir sig sjálft við beitum meiri og flóknari úrræðum fyrir alla sjúklinga sem eru hjá okkur en ef þeir eru á hjúkrunarheimili. Það munar að minnsta kosti tvöfalt."

Björn segir fjölgun innlagna fylgja aukinn kostnaður sem að spítalinn þurfi nú að mæta. Á síðustu tveimur til þremur árum hefur hann þurft að skera niður kostnað sinn um 23%.

„Að bæta á okkur meiri verkefnum án þess að það fylgi því fé er auðvitað mjög erfitt og gerir það að verkefnum að við núna í fyrsta skipti í langan tíma, í meira en tvö ár, erum ekki réttu megin við strikið í okkar fjárhag það gerir það að verkum að við þurfum að beita einhverjum nýjum úrræðum til að laga þetta," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×