Innlent

Friðun Eldvarpa núna í efsta sæti hjá Ómari

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ómar Ragnarsson hefur nú sett Eldvörp á Reykjanesi í efsta sæti yfir þau svæði sem hann vill friðlýsa. Eldvörp eru í nýtingarflokki í drögum að rammaáætlun og áformar HS-orka þar allt að fimmtíu megavatta jarðhitavirkjun.

Eldvörp eru á Reykjanesskaga skammt frá Grindavík og talin hluti jarðhitasvæðisins í Svartsengi þar sem Bláa lónið er. Öflug borhola sem boruð var fyrir tæpum þrjátíu árum er stundum látin blása fyrir ferðamenn en þarna hefur HS Orka lagt drög að 30 til 50 megavatta virkjun vegna álvers í Helguvík.

Ómar vill sjá Eldvörp nýtt með öðrum hætti og segir þetta einn besta staðinn til að sýna ferðamönnum gígaröð nálægt Keflavíkurflugvelli. Ómar segir áformað að Eldvörp fari í nýtingarflokk, sem hann telur rangt orð, enda sé einnig hægt að nýta svæðið án þess að það sé orkunýting.

"Ég vil berjast fyrir verndarnýtingu svæðisins vegna þess að þarna geturðu séð gígaröð, alveg einstæða, ennþá nokkurnveginn ósnortna," segir Ómar. Hann óttast jafnframt að með virkjun Eldvarpa verði gengið of nærri jarðhitageymi svæðisins.

„Þetta er tvöfalt óráð. Að eyðileggja gígaröð sem er þarna á besta stað fyrir ferðamenn. Og númer tvö: Að klára orkuna tvöfalt hraðar en þyrfti," segir Ómar sem kveðst nú setja Eldvörpin númer eitt. "Núna. Af því að þetta er að dynja yfir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×