Innlent

Sveitungar Steingríms óttast pólitíska spillingu með kvótafrumvörpum

Þórshöfn á Langanesi.
Þórshöfn á Langanesi. Mynd/PK
Sveitarstjórn Langanesbyggðar telur að kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar vegi ekki aðeins að heilu byggðarlögunum heldur leiði einnig til pólitískrar spillingar. Þetta segir í umsögn sem send hefur verið atvinnuveganefnd Alþingis um stjórnarfrumvörp Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til laga um stjórn fiskveiða og um veiðigjöld.

Umsögnin kemur úr heimahéraði Steingríms J., sem er frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði, en þeir eru um tólf kílómetra frá Þórshöfn þar sem skrifstofa Langanesbyggðar er. Gunnarsstaðir eru þó í næsta sveitarfélagi við, Svalbarðshreppi.

"Sveitarstjórn Langanesbyggðar óttast að fyrirkomulag það sem frumvarpið boðar við stjórn fiskveiða, leiði ekki aðeins til óhagræðis og sóunar, heldur einnig pólítískrar spillingar. Frumvarpið vegur jafnframt að heilu byggðalögunum, starfsöryggi fiskvinnslufólks, sjómanna og útgerðarfyrirtækja sem eru burðarásar búsetu á landsbyggðinni og þar með kjörum þeirra fjölskyldna sem eiga afkomu sína undir fiskveiðum og vinnslu," segir í umsögninni.

Í umsögn um frumvarp til laga um veiðigjöld segir meðal annars:

"Það er mat sveitarstjórnar Langanesbyggðar að umrætt frumvarp til laga um veiðigjöld muni hafi gríðarlegar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sveitarfélagið. Hagsmunir sjávarbyggða á borð við Langanesbyggð fara saman við hagsmuni öflugra sjávarútvegsfyrirtækja. Ljóst er að veiðigjöldin sem frumvarpið boðar yrðu afar íþyngjandi fyrir rekstur þeirra. Þannig myndi frumvarpið leiða til verulegs samdráttar í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna og þar af leiðandi draga úr umsvifum þeirra í sjávarbyggðunum. Uppbyggingu og árangri síðustu ára í atvinnulífi Langanesbyggðar yrði stefnt í voða og búsetuskilyrði í sveitarfélaginu rýrð."

Sveitarstjórn Langanesbyggðar kveðst ekki getað unað við slíkt og krefst þess að bæði frumvörpin verði dregin til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×