Fótbolti

Mögulegt að Pearce velji EM-hóp Englands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuart Pearce.
Stuart Pearce. Nordic Photos / Getty Images
Enn hefur nýr landsliðsþjálfari Englands ekki verið ráðinn og því er mögulegt að Stuart Pearce muni velja landsliðshópinn sem fer á EM í sumar nú í byrjun næsta mánaðar.

Pearce þjálfar U-21 landslið Englands og mun einnig stýra knattspyrnuliði Breta á Ólympíuleikunum í Lundúnum í sumar.

Hann sagði í viðtali við breska fjölmiðla í dag að hann muni líklega velja EM-hópinn þann 10. maí eða svo ef ekki verður búið að ráða landsliðsþjálfara þá.

Þó er enn mögulegt að landsliðsþjálfari verði ekki ráðinn fyrr en í lok maímánaðar en mótið í Póllandi og Úkraínu hefst þann 8. júní.

„Ég er alveg til í að taka bæði mótin [EM og Ólympíuleikana] í sumar. Það væri frábær reynsla fyrir mig," sagði Pearce. „En hvort sem að ég muni fara á EM í sumar eða einhver annar er búið að skipuleggja liðið og allan undirbúning í þaula."

„Hver sem tekur við verður örugglega ánægður með þá vinnu sem er búið að vinna af hendi, bæði af Fabio Capello og mér sjálfum. Það er ekkert því til fyrirstöðu að nýr þjálfari takið við starfinu á morgun og taki upp þráðinn þá."

Fabio Capello hætti sem landsliðsþjálfari Englands í febrúar og Pearce stýrði landsliðinu í vináttulandsleik gegn Hollandi sem tapaðist, 3-2. Harry Redknapp, stjóri Tottenham, hefur helst verið orðaður við starfið en þó er ekki talið líklegt að hann taki við því fyrr en að tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×