Innlent

Bræður dæmdir fyrir líkamsárás á Ráðhústorginu

Akureyri
Akureyri
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi bræður á þrítugsaldri fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Annar bróðirinn hlaut átta mánaða fangelsisdóm, en hann var á skilorði vegna annars brots. Sex mánuðir dómsins eru skilorðsbundnir.

Hinn maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þeir skulu einnig greiða fórnarlambi sínu hundrað þúsund krónur. Þeir játuðu sök. Bræðurnir veittust að manni á torginu og sló annar þeirra hann í hnakkann með glerflösku sem brotnaði við höggið. Hinn bróðirinn sló þá manninn að minnsta kosti tvisvar sinnum í andlitið og sparkaði síðan í fórnarlambið þegar það var fallið í götuna. Maðurinn marðist við árásina í andliti og fékk sár á hnakkann.

Dómarinn segir það auka á alvarleika brotsins að bræðurnir hafi unnið það í félagi. Verjandi þeirra byggði hinsvegar á því fyrir dómi að annar bróðirinn hafi verið að ná sér eftir mjaðmargrindarbrot og því ekki mátt við því að fá högg eða áverka. „Því hefðu ákærðu þurft að hafa snör handtök þegar átök hefðu hafizt," segir í dómnum. Að mati dómara breytir þetta engu, enda hafi ekki verið sýnt fram á að „ástand þess ákærða á umræddum tíma réttlæti" árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×