Innlent

Reglur um heimsóknir hertar á Litla Hrauni

Reglur um heimsóknir á Litla-Hrauni hafa verið hertar til muna eftir að lögfræðingur varð uppvís að því að leyfa skjólstæðingi sínum í gæsluvarðhaldi að hringja. Formaður lögmannafélags Íslands segir slíka hegðun koma óorði á stéttina.

Lögmenn verða nú að lúta sömu reglum og aðrir þegar þeir hitta skjólstæðinga sína innan fangelsisveggja og verður þeim hér eftir bannað að fara inn með farsíma eða tölvur og mega eiga von á að þurfa að gangast undir málmleit. Þá verða þeir sömuleiðis skyldugir til að framvísa skilríkjum og sanna að þeir séu verjendur umrædds fanga.

Reglurnar voru hertar fyrir hálfum mánuði að gefnu tilefni samkvæmt upplýsingum frá fangelsismálastofnun sem vildi ekki fara nánar út í málið. Brynjar Níelsson, formaður lögfræðifélags Íslands segist hafa fengið þá skýringu að nokkrir lögmenn hafi misnotað þann trúnað sem þeir höfðu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu varð mælirinn fullur þegar lögfræðingur varð uppvís að því að leyfa skjólstæðingi sínum í gæsluvarðhaldi að hringja en þannig gat hann haft í hótunum við vitni. Brynjar segir að borið hafi á því að nokkrir verjendur hafi leyft skjólstæðingum að nýta síma sinn og tölvu og að grunsemdir hafi verið uppi um að þeir hafi farið með skilaboð á milli fanga í gæsluvarðhaldi.

„Ég hef svo sem heyrt þetta og Fangelsismálastofnun segist hafa upplýsingar um þetta og að það hafi verið tilefni þessara reglna," segir Brynjar. „Auðvitað kemur það óorði á stéttina að nokkrir lögfræðingar skuli hafa misnotað þetta."

„En auðvitað er þetta alltaf þannig í stórri stétt, fjölmennri stétt að einhver misnotað eitthvað sem kemur öðrum illa og kannski ímynd stéttarinnar," segir Brynjar. „Þetta er óþægileg atriði sem við þurfum að sjálfsögðu að ræða innan stéttarinnar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×