Innlent

Stefna á hjólstólahandboltamót í Svíþjóð

Handbolti í hjólastólum er ekki ósvipaður venjulegum handbolta nema að liðsmenn eru allir bundnir hjólastól, dómarinn er utan vallar og mörkin hafa verið lækkuð. Upphafsmenn íþróttarinnar segja það hafa vantað hópíþrótt fyrir fatlaða.

„Okkur datt í hug á sínum tíma að gera okkar besta til að bæta við í íþróttaflóru fatlaðra á Íslandi en hún var engin á þeim tíma sem við fórum á stað með þetta. Það var einungis boðið upp á einstaklings greinar, lyftingar og slíkt," segir Friðrik Þór Ólason og bætir við: „ Íslendingar eru jú ein fremsta þjóð í heimi í handbolta og hvers vegna ekki að bjóða upp á handbolta líka fyrir hreyfihamlaða."

HK tók liðið upp á arma sína og hafa þeir æft saman síðan veturinn 2010 og segja árangurinn batna með hverri æfingu, en fjórtán strákar og ein stelpa æfa nú með liðinu.

„Síðasta vetur vorum við ekki með neinn þjálfara en nú erum við komnir með þjálfara, þetta var mjög skrítið á síðasta vetri en svo bættist í hópinn og nú gengur allt vel," segir hann.

Þeir segja félagsskapinn góðan og voru mikil átök á vellinum á meðan á æfingu stóð. Strákarnir þurfa að fara erlendis til að keppa í íþróttinni og binda þeir vonir við mót í Lundi í Svíþjóð í vetur en vilja þó ekkert gefa upp um markmið sín, en þeir eru metnaðarfullir í íþróttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×