Innlent

Þurfum að stíga varlega til jarðar varðandi vopnaða lögreglu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, er tilbúinn að skoða hugmyndir um að lögreglan fái auknar heimildir til vopnaburðar. Hann segist skilja áhyggjur lögreglumanna í harðnandi ofbeldisheimi.

Lögreglumenn vilja fá heimild til að ganga um með rafbyssur og hafa skammbyssur í lögreglubílum. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Landssamband lögreglumanna lét gera nýlega en greint var frá málinu í fréttum stöðvar tvö í gær.

„Þetta kemur út úr þessari könnun að það er almennur vilji og mikill meirihluta vilji lögreglumanna að þetta sé gert. þetta kostar allt peninga og kostar mikla og skipulagða þjálfun og átak í þjálfun lögreglumanna það er annað sem kom fram í þessari könnun að það þarf að gera það hvort eð er hvort sem að þessi leið yrði farin eða ekki," sagði Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segist vera tilbúinn að skoða þessar hugmyndir en ráðuneytið hefur ekki fengið formlegt erindi frá lögreglumönnum vegna málsins.

„Ég skil mjög vel áhyggjur lögreglumanna í harðnandi ofbeldisheimi og ekki viljum við hafa lögregluna óvarða. Og ófæra um að bera hönd fyrir höfuð sér gagnvart vopnuðum ofbeldismönnum. ég minni þó á að víkingasveitin hefur vopn undir höndum og síðan er það sitthvað að lögreglan almennt sé með vopn, beri vopn eða hafi aðgang að vopnum," segir Ögmundur.

Hugmyndin um að hafa skammbyssur lögreglubílum byggir á norskri fyrirmynd. Vopnin eru geymd í sérstakri hirslu sem er fest í bílinn og tryggilega læst.

„Og jafnvel er hægt að hugsa sér það t.d. ef það er verið að skoða þessa leið hér að þetta yrði ekki opnað og ekki hægt að opna nema með einhverjum aðgangskóðum frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar eða eitthvað þvíumlíkt, það er alls kyns tækniútfærslur á því," útskýrir Snorri.

Ögmundur segir þó mikilvægt að stíga varlega til jarðar í málinu. „Ástæðan fyrir því að menn hafa vilja fara varlega er að vopn kalla á vopn," segir Ögmundur.

Þannig að þú óttast að ef lögreglan fer að ganga um með skammbyssur þá muni glæpamenn líka fara ganga um með skammbyssur?

„Það er sú röksemd sem teflt hefur verið fram til þessa, ekki bara af minni hálfu heldur af hálfu lögreglunnar líka," svarar Ögmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×