Innlent

Íslenskt lambakjöt ódýrara í Noregi en hér á landi

Íslenskt lambakjöt er ódýrara í verslunum í Noregi en hér á landi. Þetta segir íslendingur búsettur í Noregi sem þakkar íslenskum skattgreiðendum sérstaklega fyrir að niðurgreiða kjötið.

Guðni Ölversson, er búsettur í Noregi en í Facebook-færslu um helgina sagðist hann hafa keypt íslenskt lambakjöt í norskri verslun á tæpar tólf hundruð krónur kílóið. Algengt verð í verslunum hér á landi er kringum tólf hundruð og fimmtíu krónur.

Heimir Karlsson og Kolbrún Björnsdóttir, spjölluðu við Guðna í þættinum Ísland í bítið á Bylgjunni í morgun. Guðni sagði að kjötið hafi ekki verið sérstaklega auglýst sem Íslenskt.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við erum að fá lambakjöt á svona fínu verði. þetta er reyndar dýrt miðað við það sem við vorum að kaupa lambakjötið, eða lambalærið í haust og síðastliðið sumar," segir hann, en þá gat hann keypt læri á 59 krónur norskar, sem jafngildir þrettán hundruð íslenskum krónum.

Sauðfjárbændur fá árlega 4,5 milljarða í beingreiðslur frá ríkinu.

Samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðarráðuneytinu er búið að flytja um 420 tonn af íslensku lambakjöti til Noregs það sem af er þessu ári. Meðal kílóaverð á hálfum og heilum skrokkum er 1.004 krónur og er þá ekki tekið tillit til flutningskostnaðar eða virðisaukaskatts. Miðað við þetta er norskar verslanir í sumum tilvikum að selja íslenskt lambakjöt undir kostnaðarverði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×