Innlent

Virðast ráðast á hvaða hunda sem er

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hér sést labradorhundurinn lúffa fyrir husky hundunum. Labradorinn slapp án varanlegra meiðsla.
Hér sést labradorhundurinn lúffa fyrir husky hundunum. Labradorinn slapp án varanlegra meiðsla.
Husky hundarnir virðast ráðast á hvaða hunda sem er, óháð tegund eða kyni, segir Sigrún Guðlaugardóttir, eigandi labradors sem varð fyrir árás hundanna fyrir um ári síðan. Hundarnir, sem eru úr Grafarvogi, hafa verið töluvert til umræðu vegna árása þeirra á hunda og ketti. Vinkona Sigrúnar var með labradorinn á göngu á Geirsnefi þegar husky hundarnir réðust á hann. Hann slapp án varanlegra meiðsla, þótt það hafi blætt úr honum á tveimur stöðum. „Hann hefur aldrei verið árásargjarn og aldrei tekið á móti og það var honum til happs," segir Sigrún.

Sigrún segir að það sé mikil reiði á meðal hundaeigenda í garð mannsins sem á husky hundana. Hann verði að sæta ábyrgð á því hvernig komið sé fyrir hundunum. „Mér finnst að eigandi hundanna eigi að bera ábyrgð. Hann er búinn að skemma þessa hunda. Það eru ekki til vondir hundar, bara vondir eigendur," segir Sigrún. „Ég veit að það er mikil reiði hundafólks vegna þess að þetta eru dýrin sem okkur þykir vænt um og þau sæta alltaf vondri umfjöllun út af svona fólki," bætir hún við.

Sigrún segir að fyrir skömmu hafi husky hundarnir ráðist að hvolpafullri labrador tík, þannig að það virðist engu skipta um hvaða tegund eða kyn sé að ræða. Husky hundarnir ráðist á alla.



----------

Viðbót klukkan 14:30

Fullyrt var í þessari frétt fyrr í dag að um siberian-husky hunda væri að ræða. Samkvæmt upplýsingum sem Vísir hefur fengið er það ekki rétt heldur er um alaska-husky, sem eru sleðahundar, að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×