Innlent

Áfengis- og húsgagnaverslun jókst á milli ára

Velta í dagvöruverslun í marsmánuði jókst frá fyrri mánuði í öllum flokkum, enda febrúar mánuður stuttur og að auki voru fimm föstudagar í mars mánuði en þeir vega nokkuð þungt í veltu, sérstaklega í flokki dagvöru og áfengis. Þannig jókst sala áfengis um 12,2% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 17,2% á breytilegu verðlagi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá rannsóknarsetri verslunarinnar.

Breytingar á milli mánaða eru þó litlar sé tekið tillit til fleiri neysludaga eins og þeirra fimm föstudaga sem finna mátti í marsmánuðu. Áfengisverslun og fataverslun jókst þannig um innan við eitt prósentustig og sala raftækja dróst saman um tæpt prósent.

Í mars mánuði voru það sérvöruflokkar sem helst sýndu aukna veltu frá fyrra ári.

Segja má að raftækjaverslun hafi náð botni í maí 2010 og hefur velta þokast þar upp á við nokkuð stöðugt síðan þá. Húsgagnaverslun hefur að mestu staðið í stað frá árinu 2009 og 6,2% aukning sem mælist í mars er ekki endilega merki um viðsnúning, næstu mánuðir munu leiða það í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×