Innlent

Ólöf: Sjálfstæðisflokkurinn á góðri siglingu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Ég er auðvitað mjög ánægð með þessar niðurstöður sem þarna koma fram," segir Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins um nýja skoðanakönnun Fréttablaðsins. Samkvæmt niðurstöðunum mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 43% fylgi en ríkisstjórnarflokkarnir með 23% fylgi samanlagt. Ólöf bendir á að niðurstöður sem komu fram í könnun Capacent um daginn hafi verið góðar og þessar fylgi svo í kjölfarið. „Þannig að ég held að það sé alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er á góðri siglingu," segir Ólöf.

Ólöf segir að ríkisstjórnarflokkarnir komi afar út úr könnuninni. „Það er fyrst og fremst vegna þess árangursleysis sem hefur verið við landsstjórnina, endalaus ágreiningur og fólk sér ekki fram á það að hagur sé að vænkast hér," segir Ólöf. Sjálfstæðismenn hafi aftur á móti talað mjög skýrt fyrir því að lækka skatta og mæta þörfum heimilanna. „Það hefur þurft að tala skýrt og einfalt mál," segir Ólöf.

Þrátt fyrir að stór hópur aðspurðra í könnuninni vilji ýmist ekki gefa upp hvað hann myndi kjósa eða segist myndi ekki kjósa neinn þeirra flokka sem eru í boði telur Ólöf að sá hópur fari minnkandi. En Ólöf telur að það sé hægt að gera ýmislegt til að koma til móts við það fólk sem telur sig engan valmöguleika hafa. „Mín skoðun er sú að menn verði að tala með skýrum hætti um það hvað hægt er að gera. Fólk verður að hafa trú á því að það sé staðið við það sem sagt er," segir Ólöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×