Innlent

Beittu piparúða til að ná manni úr lögreglubíl

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ölvaður maður réðst að lögreglubíl um þrjúleytið í nótt og barði í bílinn. Þegar lögreglumenn höfðu afskipti af honum sýndi maðurinn þeim ógnandi tilburði. Maðurinn var handtekinn og er vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.

Þá gerði vegfarandi sér lítið fyrir og settist í bílstjórasæti lögreglubíls þegar lögreglumenn sinntu útkalli í Bankastræti í nótt. Maðurinn neitaði að yfirgefa bílinn þegar lögreglumenn gáfu honum fyrirmæli um það. Lögreglumenn þurftu að nota úðavopn til að ná manninum úr lögreglubílnum. Maðurinn sem var ölvaður var síðan færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu og vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann. Rétt er að taka fram að lögreglubíllinn var ekki í gangi þegar maðurinn stökk upp í hann.

Þá var ökumaður bíls handtekinn í Tryggvagötu um hálfellefuleytið í nótt, en hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna við akstur. Ökumaðurinn átti aðild að umferðaróhappi og var því vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×