Enski boltinn

Balotelli reiðubúinn að ganga til sálfræðings

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Mario Balotelli er sagður vera tilbúinn að leita hjálpar sálfræðings til að bjarga ferli sínum hjá Manchester City. Þetta er fullyrt í enska götublaðinu The Sun.

Balotelli er nú að taka út þriggja leikja bann eftir að hafa fengið sitt þriðja rauða spjald í vetur þegar City tapaði fyrir Arsenal, 2-0, um síðustu helgi.

Mancini virtist hafa fengið sig fullsaddann af uppátækjum Balotelli eftir leikinn og sagði að hann yrði líklega seldur í sumar. En hann hefur reyndar dregið þau ummæli til baka.

Balotelli er 21 árs gamall og er haft eftir „nánum vini" hans í The Sun að hann vilji ekki fara frá Mancini og Manchester City.

„Hann er meira að segja tilbúinn til að leita sér hjálpar fagmanneskju til að koma sér í betra lag. Hann býr yfir miklum hæfileikum en er á góðri leið með að eyðileggja ferilinn," sagði vinurinn.

„Hann veit að hann þarf annað hvort að taka á sínum málum ef ekki á illa að fara."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×