Innlent

Bjóst við afsökunarbeiðni frá Alistair Darling

„Þetta var einstaklega erfið ákvörðun, sérstaklega í fyrsta skiptið," sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti í ítarlegu viðtali við Buisness Insider þegar hann lýsti því hversu erfitt það hefði verið að hafna fyrri lögunum um Icesave. Hann segir í viðtalinu að hann hafi verið undir gríðarlegum þrýstingi frá Evrópu um að samþykkja lögin sem og eigin þjóð.

„Það voru mjög valdamikil öfl, bæði á Íslandi og í Evrópu, sem töldu ákvörðun mína algjörlega brjálaða," sagði Ólafur í viðtalinu þegar hann hafnaði lögunum. Hann sagði mikilvægari sjónarmið hafa vegið þungt. Þannig telji hann það ekki heilbrigðan farveg fyrir evrópskt efnahagslíf að einkavæða gróðann og ríkisvæða tapið.

Hann segir það afar óheilbrigð skilaboð til fjármálalífsins að hvetja bankamenn til þess að taka áhættu þegar almenningur mun ávallt borga brúsann fari illa.

Ólafur Ragnar segir ennfremur í viðtalinu að hann hafi búist við afsökunarbeiðni frá þáverandi fjármálaráðherra Bretlands, Alistair Daling, vegna ákvörðunar um að beita Ísland hryðjuverkalögunum í miðju hruninu.

„Ég tók eftir því að Darling sá ekki einu sinni sóma sinn í því að biðjast afsökunar á þessu í nýrri bók sinni," segir Ólafur Ragnar sem bætir þó við að hann kenni engum sérstaklega engum um hvernig fór í þeirri pólitísku rimmu - hann hafi ákveðinn skilning á umhverfinu og tortryggninni sem þá ríkti á milli þjóðanna.

Hægt er að lesa viðtalið við Ólaf í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×