Innlent

Hundaeigandinn kærður til lögreglu

Mynd/AP
Eigandi tveggja hunda af Husky-kyni sem drápu kött í Foldahverfinu í Grafarvogi í gær hefur verið kærður til lögreglu. Árásin var svo grimmileg að dýrið hryggbrotnaði.

Hundarnir réðust á læðuna Lóló um eittleytið í gærdag. Það var eigandi hennar sem hrakti hundana tvo á brott og var aðkoman hræðilega. Kötturinn, sem var útataður í blóði og stjarfur af hræðslu, drapst á leiðinni á dýraspítala en hann hryggbrotnaði í árásinni og var allur útbitinn.

Eigandinn hringdi á neyðarlínuna um leið og árásin átti sér stað en auk þess fékk lögregla tilkynningu um að sömu hundar hefðu farið hálfir ofan í barnavagn á öðrum stað í hverfinu. Lögreglan elti hundana um hverfið og eftir nokkra stund tókst að loka þá inni í garði við Fjallkonuveg. Að því loknu var haft samband við eiganda þeirra sem kom á vettvang og tók dýrin í sína vörslu en annar hundurinn var blóðugur um kjaftinn eftir að hafa ráðist á köttinn.

Eigandi kattarins fór til lögreglu í morgun og lagði fram kæru á hendur eiganda Husky-hundanna og hefur hann einnig haft samband við hundaeftirlit Reykjavíkur en þar bíða eftirlitsmenn eftir gögnum frá lögreglu. Eigandinn lítur málið grafalvarlegum augum og segist ekki vilja hugsa til þess hvað hefði geta gerst ef barnabörnin hefðu verið að leik fyrir utan húsið þegar hundana bar þar að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×