Innlent

Kvartað undan lausagöngu Husky-hunda í Grafarvogi

Kvartað hefur verið undan lausagöngu Siberian Husky-hunda í Grafarvogi að undanförnu en tveir slíkir léku þar lausum hala í gær og drap annar þeirra kött. Eigandinn, sem hefur sex Husky-hunda í sinni umsjá, var kærður í morgun.

Hundarnir, tík og rakki, eru þriggja ára og úr sama goti. Það var tíkin sem réðst á læðuna Lóló í Foldahverfinu sem drapst skömmu eftir árásina en hún hryggbrotnaði og hlaut mörg ljót bitsár.

Þessir sömu hundar fóru hálfir ofan í barnavagn á öðrum stað í hverfinu og náðust ekki fyrr en eftir nokkurn eltingaleik. Eigandi hundana fékk dýrin aftur í sína vörslu en hann hefur nú verið kærður til lögreglu.

„Næstu skref eru að fara fram á skapgerðarmat á hundinum. Hafi hann ekki þegar verið aflífaður eða búið að taka ákvörðun um það, þá tökum við ekki ákvörðun um slíkt nema að undangengnu slíku mati," sagði Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Þá verður eigandanum gert að hafa hundinn mýldan þar til matið liggur fyrir en hann hefur samkvæmt heimildum fréttastofu sex Siberian Husky-hunda í sinni umsjá. Í samtali við fréttastofu sagðist íbúi á þessu svæði hafa orðið var við lausagöngu Husky-hunda að undanförnu en vildi þó ekki fullyrða að þarna hafi sömu hundar verið á ferðinni.

„Já, við höfum fengið einhverjar tilkynningar um Husky-hunda á þessu svæði en við höfum ekki getað gripið þá sjálf."

Árný segir lausagöngu hunda vera talsvert vandamál hér á landi og brýnir fyrir hundaeigendum að fara eftir reglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×